Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins vill styrkja fiskistofna á næstu fjórum árum með því að taka upp kvótakerfi og sporna við brottkasti á kvótaskyldum tegundum. Talið er að Frakkar og Spánverjar muni spyrna við fótum.
Samkvæmt frumvarpsdrögum er meginmarkmið Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB, að „hámarka nýtingu“ fiskistofna „eigi síðar en 2015.“
Til að ná þessu markmiði ætlar hún mörkuðum að gera það sem stjórnmálamönnum hefur mistekist - að draga úr stærð evrópska fiskiskipaflotans, sem þó hefur minnkað mikið nú þegar og gert það að verkum að frönsk og spænsk skip hafa getað veitt utan sinna hefðbundnu veiðisvæða.
Ætlunin er að innleiða kerfi sem felur það í sér að kvóti er keyptur og seldur á mörkuðum. „Framseljanlegar aflaheimildir stuðla af krafti að hagræðingu í flotanum,“ segir í greinargerð með frumvarpsdrögunum. Smæstu bátarnir, undir 12 metrum, verða undanskildir áformunum.
Evrópusambandið vill einnig koma í veg fyrir brottkast á fiski „sem ekki hefði átt að veiða til að byrja með,“ og skylda sjómenn til að landa öllum kvótaskyldum fiski svo hann sé talinn með - hvort sem markaður er fyrir hann eða ekki.