Segir pakistönsku leyniþjónustuna tengjast uppreisnarmönnum

Mike Mullen, yfirmaður bandaríska herráðsins.
Mike Mullen, yfirmaður bandaríska herráðsins. Reuters

Mike Mullen, yfirmaður bandaríska herráðsins, hefur sakað pakistönsku leyniþjónustuna (ISI) um að tengjast uppreisnarmönnum sem hafi gert árásir á hermenn í Afganistan.

Mullen, sem er nú staddur í Íslamabad, höfuðborg Pakistans, segir að leyniþjónustan hafi lengi átt í samskiptum við uppreisnarhóp sem sé undir stjórn uppreisnarmannsins Jalaluddin Haqqani.

Pakistanskir embættismenn eru nú staddir í Bandaríkjunum þar sem þeir ræða við bandarísk stjórnvöld.

Yfirvöld í Pakistan hafa ávallt neitað því að þau eigi í samskiptum við uppreisnarmenn.

„Það er vitað að ISI hefur lengi tengst neti Haqqani,“ sagði Mullen í viðtali við pakistanska dagblaðið Dawn.

„Haqqani styður, fjármagnar og þjálfar bardagamenn sem eru að drepa Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra. Það er heilög skylda mín að gera allt sem í valdi mínu stendur til að koma í veg fyrir slíkt,“ segir Mullen.

Hann segir ennfremur að hann muni ræða við hershöfðingjann Ashfaq Kayani, sem yfirmann pakistanska herráðsins, um málið.

Fréttaskýrendur segja að ummæli Mullens veki mikla athygli. Þeir embættismenn sem hafi hingað til rætt um þessi tengsl hafi ekki viljað koma fram undir nafni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert