Krefjast endurskoðunar Schengen

Norður-afrískir flóttamenn hafa streymt til ítölsku eyjarinnar Lampedusa og áfram …
Norður-afrískir flóttamenn hafa streymt til ítölsku eyjarinnar Lampedusa og áfram til meginlands Evrópu. Reuters

Frakkar kölluðu í dag eftir endurskoðun Schengen-sáttmálans, en hans vegna er hægt að ferðast innan Evrópu án vegabréfa. Þeir sögðu kerfið gallað því það hindri það að hægt sé að stemma stigu við straumi flóttamanna frá Túnis og Líbíu í gegnum Ítalíu.

„Stjórnun Schengen er að bregðast. Það virðist vera þörf fyrir að huga að lausnum sem leyfa, þegar ytri landamæri (ESB) bregðast, að gripið sé til sérstakra aðgerða þar til slíkir tímabundnir veikleikar hafa verið lagaðir,“ sagði í tilkynningu frá frönsku forsetaskrifstofunni.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) benti á sama tíma á það í Brussel að hægt væri að koma á landamæraeftirliti „mjög tímabundið og eðlilega rökstutt“.

Samkvæmt Schengen sáttmálanum er gerð sú krafa að einungis „mikil ógn við öryggi almennings eða innra öryggi“ geti í „undantekningartilfellum“ réttlætt að landamæraeftirlit verði aftur tekið upp og þá einungis í 30 daga. Verði ógnin viðvarandi er hægt að framlengja tímann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert