Maður lét lífið í dag eftir að hafa verið skotinn með Taser-rafbyssu við húsakynni Universal kvikmyndaversins í Orlando í Flórída-fylki Bandaríkjanna. Lögreglumaður sem var ekki á vakt beitti vopninu.
Frá þessu segir á vef BBC.
Adam Spencer Johnson, 33 ára gamall, er sagður hafa hagað sér illa þegar fimm lögregluþjónar nálguðust hann. Þeim hafði borist ósk um aðstoð frá öryggisvörðum versins. Brugðið var á það ráð að gefa Johnson raflost með Taser-byssunni þar sem hann veitti mótspyrnu þegar átti að handtaka hann.
Johnson féll til jarðar og var handtekinn. Hann missti meðvitund þar sem hann lá og svo kom í ljós að hann var dáinn. Að sögn lögreglu voru gerðar lífgunartilraunir þegar hann missti meðvitund.
„Hann var eiginlega að ganga um, grípandi í skegg sitt, haldandi um höfuð sér og í hár sitt og þeir voru að reyna að ná sambandi við hann. Hann var með óspektir,“ sagði Barb Jones hjá borgarlögreglunni í Orlando.
Lögreglumennirnir sem viðriðnir voru handtökuna hafa verið leystir tímabundið frá störfum.