Kínverskur stúdent hefur verið dæmdur til dauða fyrir að myrða konu eftir að hafa ekið á hana. Málið hefur vakið talsverða athygli í Kína en þar velta menn því nú fyrir sér hvort 30 ára hagvaxtaskeið hafi alið af sér kynslóð ungs fólks sem líti á forréttindi sem sjálfsagðan hlut og skorti siðferðiskennd.
Yao Jianxin, nemi við Xian Conservatory of Music, keyrði á Zhang Miao með bílnum sínum þar sem hún var að hjóla seint um kvöld þann 20. október síðastliðinn. Miao hlaut minniháttar meiðsl en þar sem Jianxin var sannfærður um að „það yrði erfitt að fást við bóndakonuna“ þar sem hún hafði séð bílnúmerið á bifreið hans, ákvað hann að ganga frá henni og stakk hana átta sinnum.
Þetta er í annað skiptið á stuttum tíma sem mál af þessu tagi kemur upp í Kína og vekur mikla athygli en Li Qiming, 23 ára, var í janúar dæmdur í 6 ára fangelsi fyrir að hafa ekið á tvær ungar konur undir áhrifum áfengis, með þeim afleiðingum að önnur þeirra lést. Hrópaði hann nafn föður síns þegar hann reyndi að flýja af vettvangi og manaði þá sem urðu vitni að atburðinum til að stöðva hann en faðir hans er háttsettur innan lögreglunnar.