Franskt björgunarskip lagði fyrr í dag af stað frá Dakar í Senegal þangað sem flugvél Air France hrapaði í Suður-Atlantshaf árið 2009 til að freista þess að ná líkum farþeganna og flaki vélarinnar af hafsbotni. Vonast er til þess að hinn svokallaði svarti kassi vélarinnar finnist óskemmdur svo komast megi að því hvað olli því að hún hrapaði.
Flugvélin var á leið frá Rio de Janeiro til Parísar í júní 2009 og 228 manns fórust þegar hún hrapaði í hafið. Meðal farþegar var einn Íslendingur.
Búist er við að verkefnið verði erfitt viðfangs. „Við munum vinna á 4000 metra dýpi og það flækir björgunarstarfið ofboðslega,“ segir Alan Bouillard, embættismaður hjá Rannsókna- og greiningarstofu. Stofan hefur umsjón með leiðangrinum.
Sérstaks útbúnaðar er þörf við framkvæmd verksins en meðal búnaðar sem björgunarmenn hafa meðferðis eru neðansjávarvélmenni og stórefliskrani til að ná flugvélinni upp á yfirborð sjávar. Vonast er til að aðgerðir geti hafist á þriðjudag.
Meginhluti flaksins fannst fyrir um þremur vikum. Fimmtíu lík hafa verið sótt enn sem komið er.