Ikea-auglýsing fer fyrir brjóstið á Ítölum

Reuters

Ítalskur aðstoðarráðherra gagnrýndi í dag auglýsingu, sem sænska húsgagnaverslunarkeðjan Ikea hefur birt þar í landi. Í auglýsingunni sjást tveir samkynhneigðir karlmenn haldast í hendur.

„Mér finnst það alvarlegt og ósmekklegt að sænskt fjölþjóðafyrirtæki skuli koma til Ítalíu og segja Ítölum hvað þeim eigi að finnast," sagði Carlo Giovanardi, aðstoðarráðherra fjölskyldumála, í sjónvarpsviðtali.

Á auglýsingunni sjást tveir karlar með innkaupapoka undir yfirskriftinni: Við bjóðum allar fjölskyldur velkomnar. 

„Ég held að mörgum viðskiptavinum Ikea þyki þetta ekki gott," sagði Giovanardi.

Hann sagði, að Ikea mætti beina auglýsingum sínum til þeirra sem fyrirtækinu en hugtakið fjölskylda, eins og það sé notað í auglýsingunni, sé í andstöðu við ítölsku stjórnarskrána þar sem segi, að fjölskylda sé byggð á hjónabandi.

Aurelio Mancuso, einn af talsmönnum samkynhneigðra á Ítalíu, sagði að ummæli Giovanardis væru hættuleg og gætu stuðlað að hatri á samkynhneigðum. Fleiri hafa tekið í sama streng.

Hjónabönd samkynhneigðra eru ekki viðurkennd á Ítalíu og engin lög eru í gildi sem banna misrétti vegna kynhneigðar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert