Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, hefur áhyggjur af því að mislingar breiðist nú eins og eldur í sinu út meðal evrópskra barna. Mislingar eru einhver mest smitandi veirusjúkdómur sem til er og einn hættulegasti barnasjúkdómurinn.
Undanfarð hafa æ fleiri börn greinst með mislinga í Evrópu og er ástæðan talin sú að slegið sé slöku við bólusetningar barna. WHO segir að minnst 6.500 tilfelli hafi komið upp innan Evrópu það sem af er 2011. Þetta er áhyggjuefni þar sem mislingar valda börnum ekki aðeins miklum óþægindum vegna útbrota, heldur geta fylgt alvarlegir og jafnvel lífshættulegir fylgikvillar.
Því hefur WHO ákveðið að næsta vika verði bólusetningarvika í Evrópu til að reyna að auka meðvitund um mikilvægi þess að bólusetja gegn mislingum. Talsmaður WHO segir að víða sé ríkjandi kæruleysi gagnvart bólusetningum auk þess sem það fari vaxandi að foreldrar setji sig hreinlega upp á móti bólusetningum og telji þær slæmar. Dæmi séu um að foreldrar taki sig heldur saman um að láta börn sín hittast og smita hvort annað af sjúkdómum til að byggja upp ónæmi.
Frakkland hefur orðið verst úti í mislingabylgjunni sem nú gengur yfir. Þar hafa 4.937 börn sýkst það sem af er ári, samanborið við 5.090 börn á öllu árinu 2010. Óvenjumörg börn hafa líka veikst í Serbíu, Spáni, Makedóníu, Tyrklandi og Belgíu. Þá segir á vef Politiken að í Danmörku hafi einnig óvenjumörg tilfelli mislinga greinst á árinu og hætt sé við því að veiran berist víðar nú um páskana þegar Danir séu á faraldsfæti að heimsækja fjölskyldu í öðrum landshlutum.