Það var full ástæða til að hafa áhyggjur af flugöryggi í Evrópu vegna ösku sem barst frá eldgosinu í Eyjafjallajökli. Þetta er niðurstaða viðamikillar rannsóknar á ösku frá gosinu og áhrifum hennar á flugöryggi.
Í skýrslunni, sem unnin var af íslenskum og dönskum sérfræðingum, segir að aska sem kom frá eldgosinu í upphafi gossins hafi verið mjög smágerð og hefði getað valdið tjóni á flugvélum sem flugu í gegnum öskuskýin. Askan hefði getað bráðnað inn í hreyflunum og skemmt þá, að því er fram kemur í frétt á BBC.
Askan frá Eyjafjallajökli olli mestu röskun á flugumferð síðan í seinni heimstyrjöldinni. Talið er að tjón flugfélaga vegna eldgossins hafi verið 1,5-2,5 milljarðar evra.
Susan Stipp, frá Kaupmannahafnarháskóla, sagði í samtali við BBC, að það væri hægt að draga nokkrar mikilvægar ályktanir af rannsókninni. Í fyrsta lagi hefðu stjórnendur flugöryggismála í Evrópu tekið rétta ákvörðun um að stöðva flugumferð vegna öskunnar. Í öðru lagi sé búið að leggja vísindalegan grunn að ákvörðunum sem taka þurfi í framtíðinni. Í þriðja lagi hafi verið búin til módel sem hjálpi mönnum að átta sig á dreifingu öskunnar.