Osama bin Laden, leiðtogi hryðjuverkasamtakanna Al-Qaeda varði þremur mánuðum á stanslausum flótta þvers og kruss um Afganistan, fyrst eftir árásirnar þann 11. september. Þetta kemur fram í leyniskjölum Bandaríkjahers sem Wikileaks birtir.
Skjölin segja að bin Laden hafi fyllst nokkurri örvæntingu eftir að honum tókst naumlega að sleppa úr skjóli sínu í Tora Bora hellunum um miðjan desember árið 2001. Hann hafi verið algjörlega auralaus á flóttanum og slegið 7.000 dollara lán frá velgjörðarmanni sínum, sem hann greiddi til baka innan árs. Áður en hann hélt í hellana er bin Laden sagður hafa tekið á móti stöðugum straumi heimsókna á gistiheimili í Kabúl, þaðan sem hann fyrirskipaði áframhaldandi árásir á vestræn skotmörk.
Á fyrstu dögum loftárása Bandaríkjamanna í Afganistan, í byrjun október 2001, mun bin Laden hafa hitt talíbanaleiðtogann Mullah Mansour í borginni Kandahar, sem og talíbanann Jalaluddin Haqqani, sem enn leiðir hóp skæruliða Talíbana sem standa fyrir árásum á Bandaríkjamenn í Afganistan.
Í nóvember 2001 flýði bin Laden svo í Tora Borahellana þar sem hann hafðist við fram í miðjan desember sama ár. Þaðan kom hann þeim skilaboðum til undirmanna sinna að „styrkjast í sannfæringu sinni fyrir baráttunni, að hlýða leiðtogunum og hjálpa Talíbönum, og að það væru alvarleg mistökað ætla að hætta áður en baráttunni væri lokið".