Réttarhöld eru hafin í Jórdaníu yfir danska skopmyndateiknaranum Kurt Westergaard vegna myndar sem hann teiknaði af spámanninum Múhameð. Westergaard er ekki viðstaddur réttarhöldin.
„Dómstóll í Amman hóf í dag réttarhöld, að sakborningum fjarstöddum, yfir þeim sem vanvirtu spámanninn, þeirra á meðal Westergaard og dönsku dagblöðunum sem birtu hina móðgandi skopmynd,“ sagði Tareq Hawamdeh, lögmaður blaðamanna og aðgerðasinna sem kærðu málið, í yfirlýsingu.
Réttarhöldunum var frestað til 8. maí.
Westergaard var stefnt þann 14. apríl síðastliðinn fyrir að hafa gerst sekur um guðlast. Westergaard teiknaði mynd af spámanninum með sprengju í túrbaninum og birtist hún í Jyllands Posten þann 30. september 2005.
Westergaard sagði fréttastofu AFP, í kjölfar stefnunnar, að hann hefði ekkert heyrt af réttarhöldunum. „Hvað sem öðru líður ætla ég ekki að fara, jafnvel þó ég verði beðinn um það,“ sagði Westergaard á föstudaginn. Hann sagðist ekki hafa áhuga á því að kynnast aðbúnaði í jórdönskum fangelsum.