Sannsögli helsta lexía Tsjernóbyl

Dmitry Medvedev Rússlandsforseti.
Dmitry Medvedev Rússlandsforseti. Reuters

Stærsta lexían sem læra má af kjarnorkuslysunum í Tsjernóbyl og Fukushima er sú að yfirvöld verða að segja sannleikan. Þetta sagði Dmitry Medvedev, forseti Rússlands, í dag í aðdraganda þess að á morgun verða liðin 25 ár frá versta kjarnorkuslysi sögunnar, í Tsjernóbyl í Úkraínu.

Medvedev átti í dag fund í Kremlin með björgunarmönnum sem önnuðust hreinsistarf í Tsjernóbyl og hafa lengi kvartað yfir því að þeir hafi ekki verið meðvitaðir um þá áhættu sem fólst í störfum þeirra. „Ég tel að ríki nútímans hljóti að sjá að helsta lexían eftir það sem gerðist í Tsjernóbyl og nú síðast í Japan sé nauðsyn þess að segja sannleikann," sagði Medvedev. „Heimurinn er viðkvæmur staður og við erum öll svo tengd að sérhver tilraun til að leyna sannleikanum og fegra aðstæður eru dæmdar til að enda með harmleik og kosta mannslíf. Þetta er erfið en mikilvæg lexía eftir það sem hefur gerst."

Ekki heyrðist múkk frá yfirvöldum í Moskvu í þrjá sólarhringa eftir að Tsjernóbyl slysið átti sér stað þann 26. apríl 1986. Opinbera fréttastofan TASS greindi fyrst frá því að slys hefði orðið eftir að sænska kjarnorkuverið Forsmark tilkynnti að óvenjuhá geislavirkni hefði mælst.  Fyrsta fréttin sem birtist um það í flokksriti kommúnista, Pravda, var örsmá grein með litlum stöfum aftast í blaðinu. „Ríkið hafði ekki hugrekki til að viðurkenna afleiðingar slyssins. Ég man eins og hver annar hversu furðulega þetta leit allt út," sagði Medvedev.

Fyrirtækið að baki Fukushima kjarnorkuverinu, Tokyo Electrical Power Co. hefur einnig verið gagnrýn harðlega fyrir upplýsingastefnu sína og fyrir að gera ekki fyllilega grein fyrir stöðu mála, sérstaklega á fyrstu dögum slyssins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert