Þúsundir mótmæla kjarnorkunotkun

Þúsundir manna mótmæltu kjarnorkunotkun í Frakklandi og Þýskalandi í dag.
Þúsundir manna mótmæltu kjarnorkunotkun í Frakklandi og Þýskalandi í dag. Reuters

Þúsundir manna tóku í dag þátt í mótmælum í Þýskalandi og Frakklandi, þar sem kallað var eftir endalokum kjarnorkunotkunar. Haldnar voru mótmælagöngur á nokkru brúm sem tengja Þýskaland og Frakkland við Rínarfljót og einnig var mótmælt við nokkur þýsk kjarnorkuver.

Tilefni mótmælanna er að á morgun verða liðin 25 ár frá kjarnorkuslysinu í Tsjernóbyl. Einnig benda mótmælendur á vandamálin sem sköpuðust við Fukushima kjarnorkuverið í Japan eftir jarðskjálftann. Mótmælendur héldu á borðum og skiltum með slagorðum á borð við: „Tsjernóbyl og Fukushima, aldrei aftur!" Mótmælendur köstuðu því næst blómum út í Rínarfljót.

Meðal krafa mótmælenda er að elsta kjarnorkuveri Frakklands, Fessenheim, verði lokað. Mótmælendur segja að eftir Fukushima sé alveg ljóst að hættan sem stafi af beislun kjarnorku sé raunveruleg.  Andstaðan við kjarnorku hefur lengi verið mikil í Þýskalandi en magnaðist eftir slysið í Fukushima.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert