Glas, með blóði úr Jóhannesi Páli páfa II, verður meðal helgra dóma, sem undirbúnir hafa verið fyrir athöfn um helgina þar sem Jóhannes Páll verður blessaður.
Blóðsýnið var tekið á síðustu ævidögum Jóhannesar Páls, sem lést árið 2005 eftir að hafa gegnt embættinu í 27 ár. Í tilkynningu frá páfagarði segir, að blóðþynningarefni tryggi að blóðið storkni ekki.
Vitað er að fjögur glös eru til með blóði úr Jóhannesi Páli. Stanislaw Dziwisz, kardináli, sem var einkaþjónn páfa og er nú erkibiskup í Krakow, er með tvö glasanna en hin tvö hafa verið geymd í Bambino Gesu barnasjúkrahúsinu í Róm, sem rekur m.a. blóðgjafarastofnun.
Blessunarathöfnin fer fram á sunnudag. Er það lokaáfanginn áður en Jóhannes Páll verður lýstur dýrlingur.