Viðskiptajöfurinn Donald Trump, sem íhugar nú að bjóða sig fram í embætti forseta Bandaríkjanna, gaf í skyn í viðtali í gær að Barack Obama, Bandaríkjaforseti, hefði ekki átt skilið að ganga í þá skóla sem hann gekk í þar sem hann var lélegur nemandi.
„Ég heyrði að hann hefði verið skelfilegur nemandi, skelfilegur. Hvernig fer lélegur nemandi að því að ganga í Columbia og í Harvard?“ sagði Trump í viðtali við AP. „Ég er að íhuga þetta, ég er svo sannarlega að athuga þetta. Látum hann birta skjölin.“
Trump hefur sótt hart að Obama upp á síðkastið. Fyrir stuttu dró hann í efa að forsetinn væri í raun fæddur í Bandaríkjunum. Hann kveðst ekki ætla að hætta að efast fyrr en hann fær að sjá skjöl því til staðfestingar að hann sé fæddur í Bandaríkjunum.
Í kosningabaráttu Obama árið 2008 gaf hann ekki út upplýsingar um einkunnir sínar á skólagöngunni og í metsölubók hans, Dreams From My Father, gaf hann til kynna að hann hefði ekki verið afburðar nemandi.
„Ég á vini sem eiga klára syni með frábærar einkunnir, frábærar ferilskrár og allt frábært sem komast ekki inn í Harvard. Við vitum ekki neitt um þennan mann. Það er hellingur af ósvöruðum spurningum um forsetann okkar,“ sagði Trump.
Katie Hogan, talsmaður endurkosningarherferðar Obama, neitaði að tjá sig um málið.