Trump vill sjá einkunnir Obama

Donald Trump
Donald Trump Reuters

Viðskiptajöfurinn Donald Trump, sem íhugar nú að bjóða sig fram í embætti forseta Bandaríkjanna, gaf í skyn í viðtali í gær að Barack Obama, Bandaríkjaforseti, hefði ekki átt skilið að ganga í þá skóla sem hann gekk í þar sem hann var lélegur nemandi.

„Ég heyrði að hann hefði verið skelfilegur nemandi, skelfilegur. Hvernig fer lélegur nemandi að því að ganga í Columbia og í Harvard?“ sagði Trump í viðtali við AP. „Ég er að íhuga þetta, ég er svo sannarlega að athuga þetta. Látum hann birta skjölin.“

Trump hefur sótt hart að Obama upp á síðkastið. Fyrir stuttu dró hann í efa að forsetinn væri í raun fæddur í Bandaríkjunum. Hann kveðst ekki ætla að hætta að efast fyrr en hann fær að sjá skjöl því til staðfestingar að hann sé fæddur í Bandaríkjunum.

Í kosningabaráttu Obama árið 2008 gaf hann ekki út upplýsingar um einkunnir sínar á skólagöngunni og í metsölubók hans, Dreams From My Father, gaf hann til kynna að hann hefði ekki verið afburðar nemandi.

„Ég á vini sem eiga klára syni með frábærar einkunnir, frábærar ferilskrár og allt frábært sem komast ekki inn í Harvard. Við vitum ekki neitt um þennan mann. Það er hellingur af ósvöruðum spurningum um forsetann okkar,“ sagði Trump.

Katie Hogan, talsmaður endurkosningarherferðar Obama, neitaði að tjá sig um málið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert