Uppreisnarmenn í Líbíu hafa nú yfirhöndina gegn her Gaddafis Líbíuforseta. Þetta segir varnarmálaráðherra Bretlands, Liam Fox.
Fox segir að undanfarna daga hafi uppreisnarmönnum vaxið ásmegin, eftir mannskæða árás Gaddafis á borgina Misrata. „Það er greinilegt að uppreisnarmenn eru á miklu skriði,“ sagði Fox í gær.
Fox átti fund í gær með Robert Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Eftir fundinn var Fox bjartsýnn, þrátt fyrir vaxandi áhyggjur víða um heim um að deilan gæti orðið að þrátefli.
Liðsmenn Gaddafis skutu eldflaugum að Misrata í gær og vörnuðu hjálparskipi að leggjast þar að bryggju. Að minnsta kosti þrír uppreisnarmenn létust.
Bandaríkjastjórn hefur ákveðið að styrkja þjóðarráð Líbíu, sem er stjórn uppreisnarmanna, um andvirði 25 milljónir Bandaríkjadollara. Styrkurinn mun meðal annars felast í farartækjum, sjúkragögnum og fjarskiptatækjum, en ekki verða veitt hergögn.
Líbísk yfirvöld hafa beðið Rússa um að kalla Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, vegna þess sem þau kalla morðtilraun gagnvart Gaddafi, þegar NATO skaut á skrifstofur hans á páskadag. NATO segir árásinni hafa verið beint gegn samskiptamiðstöð líbíska hersins.
Helsti bandamaður Gaddafis, Hugo Chavez, forseti Venesúela, sakar NATO um að „hafa reynt að myrða vin hans“.