Kínverjar voru 1.339 milljónir í lok árs 2010 eða rúmir 1,3 milljarðar og fjölgaði um 73,9 milljónir áratuginn á undan samkvæmt tilkynningu sem kínversk stjórnvöld sendu frá sér í dag. Upplýsingarnar eru fengnar úr nýrri mannfjöldaskráningu en síðast var gerð slík skráning árið 2000.
Kínverjum fjölgar þannig mjög hratt þrátt fyrir að kínversk stjórnvöld hafi gripið til ýmissa aðgerða til þess að reyna að sporna við því. Meðal annars með því að banna fólki að eignast fleiri en eitt barn, þó með undantekningu fyrir ákveðna hópa. Þær aðgerðir eru taldar hafa komið í veg fyrir 400 milljónir fæðinga síðan þær voru fyrst kynntar til sögunnar árið 1980.
Þess má geta að íbúafjöldi Kína var 594 milljónir manna árið 1953 þegar mannfjöldaskráning var fyrst framkvæmd þar í landi eða minni en helmingur þess sem hann er í dag.