Hneykslismál skekur nú franska knattspyrnusambandið en forsvarsmenn þess eru sakaðir um að hafa sett kvóta á fjölda leikmanna af öðrum kynþáttum í unglingastarfi þess til þess að fleiri hvítir leikmenn verði í franska landsliðinu.
Hefur franska knattspyrnusambandið hafið innanhúsransókn á málinu eftir að vefsíðan Mediapart sagði frá því að forsvarsmenn sambandsins hefðu samþykkt kvóta á fjölda svarta leikmanna og leikmanna af arabískum uppruna. Samkvæmt vefsíðunni áttu kvótarnir að gilda um leikmenn allt niður í tólf til þrettán ára gamla. Áttu þeir að takmarka fjölda leikmanna af öðrum kynþáttum en þeim hvíta sem valdir væru í landslið.
Samkvæmt Mediapart átti einn háttsettasti embættismaður sambandsins að vilja setja 30% hámark á fjölda leikmanna af ákveðnum kynþáttum en krafðist þess að því yrði haldið leyndu. Breska blaðið The Guardian segir frá þessu í dag.
Átti Laurent Blanc, landsliðsþjálfari, að hafa stutt hugmyndina á fundi til þess að í landsliðið veldust leikmenn með „okkar menningu, okkar sögu“. Heimildamenn síðunnar segja að Blanc hafi vitnað í heimsmeistara Spánverja. „Þeir spænsku segja: við höfum engin vandamál. Við höfum enga svertingja,“ á Blanc að hafa sagt. Sjálfur hefur Blanc harðlega neitað öllum ásökunum þessa efnis.
Franska ríkisstjórnin hefur óskað eftir skýringum frá knattspyrnusambandinu sem hefur neitað að hafa samþykkt kvóta af þessu tagi.
François Blaquart, tæknilegur framkvæmdastjóri sambandsins, segir að það eina sem sambandið geri athugasemd við séu leikmenn sem hafi tvöfaldan ríkisborgararétt sem eru þjálfaðir í Frakklandi en fara svo og spila fyrir önnur lönd, oft í Norður-Afríku. Sagði hann það eiga við leikmenn af öllum kynþáttum.