Hryðjuverkaleiðtoginn Osama bin Laden dvaldi ekki í hrjóstrugu
fjalllendi á landamærasvæði Afganistans og Pakistans, eins og talið var,
heldur í víggirtu húsi í Abbottabad um 100 km frá Islamabad, höfuðborg
Pakistans. Þá er húsið í aðeins um 800 metra fjarlægð frá herskóla pakistanska hersins.
Upplýsingar um hvernig staðið var að aðgerðum gegn Osama bin Laden eru að koma fram. Bin Laden bjó í bænum Abbottabad í húsi sem er umkringt 3-4 metra háum veggjum.
Aðgerðirnar hófust um kl. 22:30 á staðartíma í gærkvöldi og stóðu í um 45 mínútur. Heimamenn urðu varir við að tvær eða þrjár þyrlur flugu yfir bæinn og settust fyrir utan þriggja hæða hús í útjaðri bæjarins. Nágrannar voru beðnir að halda sig heima og slökkva ljósin. Stuttu síðar heyrðust skothvellir. Heimamenn segja að ein þyrlan hafi nauðlent, líklega vegna þess að skotið hafi verið á hana úr húsinu. Þeir segja að reykur hafi sést stíga upp frá húsinu.
AP fréttastofan hefur eftir þorsbúum að þeir hafi ekki vitað hver bjó í húsinu. Háir veggir hafi verið í kringum það og þeir hafi ekki séð inn í það.
Bandarískur embættismaður segir, að húsið þar sem bin Laden dvaldi, hafi verið sérstaklega byggt til að fela einhvern mikilvægan einstakling. Þrjár pakistanskar hersveitir eru með bækistöðvar í Abbottabad og hafa spurningar vaknað um hvort pakistönsk stjórnvöld hafi vitað hvar bin Laden hélt sig.
Byggingin hafi verið reist árið 2005 og standi við enda þröngrar moldargötu þar sem gríðarlegar öryggisráðstafanir hafi verið gerðar. Umhverfis húsið eru 12-15 veggir lagðir gaddavír og tvö öryggishlið eru á veggjunum. Engar símalínur né nettengingar liggja inn í húsið.
Pakistanskar öryggissveitir hafa lengi legið undir grun um að hafa verndað bin Laden þótt stjórnvöld í Islamabad hafi ávallt vísað því á bug. Samskipti Bandaríkjanna og Pakistans hafa farið versnandi upp á síðkastið og því gætu vísbendingar um að pakistönsk stjórnvöld hafi átt einhverja samvinnu við bin Laden haft víðtæk áhrif.
Árásin á bækistöðvar bin Ladens í gærkvöldi var gerð með fjórum þyrlum, sem fóru frá Ghazi herstöðini í vesturhluta Pakistans en það bendir til þess að pakistanski herinn hafi tekið þátt í aðgerðinni með einhverjum hætti. Barack Obama, Bandaríkjaforseti, minntist hins vegar ekkert á slíkt þegar hann tilkynnti í nótt um dauða bin Ladens.
Sjónarvottar og pakistanskur embættismaður segja, að öryggisverðir bin Ladens hafi skotið á bandarísku sérsveitarmennina af þaki hússins og ein þyrlan hafi hrapað til jarðar. Hins vegar fullyrða bandarískir embættismenn, að enga Bandaríkjamenn hafi sakað í aðgerðunum. Að minnsta kosti tvær sprengingar heyrðust í Abbottabad í gærkvöldi.
Pakistanskir embættismenn segja, að auk bin Ladens hafi sonur hans og þrír aðrir látið lífið. Þá voru nokkrir karlmenn fluttir á brott með þyrlum og fjögur börn og tvær konur voru handtekin og flutt á brott í sjúkrabíl.
Mohammad Haroon Rasheed, sem býr í Abbottabad segir að aðgerðirnar hafi byrjað klukkan 1:15 í nótt að pakistönskum tíma. Hann segist hafa heyrt sprengingu og skothríð og síðan öfluga sprengingu. Í morgun hafi þyrluflak legið á akri á svæðinu.
Háttsettur félagi í hryðjuverkasamtökunum al-Qaeda, Umar Patek, var handtekinn á öðrum stað í Abbottabad í janúar.