Osama bin Laden allur

Hryðjuverkaleiðtoginn Osama bin Laden er látinn, en hann lést í gær eftir skotbardaga við bandaríska sérsveitarmenn í Pakistan. Barack Obama, Bandaríkjaforseti, sagði í nótt að réttlætinu hefði verið fullnægt, áratug eftir hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september.

Obama tilkynnti þegar í ræðu í Hvíta húsinu í nótt. Mikill mannfjöldi safnaðist saman utan við Hvíta húsið í Washington um miðnætti að bandarískum tíma. Veifaði fólkið fánum og hrópaði: Bandaríkin, Bandaríkin. 

„Í kvöld ég skýrt bandarísku þjóðinni og heiminum frá því að Bandaríkin hafa staðið fyrir aðgerð þar sem Osama bin Laden, leiðtogi Al-Qaeda og hryðjuverkamaður sem ber ábyrgð á morðum á þúsund saklausra, karla, kvenna og barna, var drepinn," sagði Obama.

Forsetinn sagðist hafa skipað bandarískum sérsveitum að ráðast á bækistöðvar bin Ladens í Abbottabad í Pakistan en vísbendingar höfðu borist um það í ágúst að bin Ladin hefðist þar við.

Fámennur hópur sérsveitarmanna hefðu gert árásina. Engan þeirra hefði sakað og þess hefði verið gætt að enginn óbreyttur borgari léti lífið. Til skotbardaga kom, Osama bin Laden hefði fallið og Bandaríkjamenn hefðu haft lík hans á brott með sér. 

Bandarískir embættismenn sögðu, að auk bin Ladens hefðu þrír karlmenn og kona látið lífið í árásinni, þar á meðal sonur hryðjuverkaleiðtogans. Tveir mannanna störfuðu sem sendiboðar fyrir bin Laden. Konan lét lífið þegar einn karlmannanna reyndi að  nota hana sem skjöld. Tvær konur til viðbótar særðust.

Sagði embættismaðurinn, að skotbardaginn hefði staðið í um 40 mínútur.

Obama varaði jafnframt við því, að hryðjuverkasamtökin Al-Qaeda muni áfram reyna að gera árásir á Bandaríkin þrátt fyrir fráfalls bin Ladens.

George W. Bush, sem var Bandaríkjaforseti þegar hryðjuverkaárásirnar voru gerðar, sagði í nótt að þetta væru afar þýðingarmikið afrek. Óskaði hann Obama og bandarísku leyniþjónustinni til hamingju. 

David Cameron, forsætisráðherra Bretands, sagði í nótt að fólki um allan heim væri létt að heyra þessar fréttir.  

Pakistanska leyniþjónustan staðfesti einnig, að bin Laden væri allur. Obama sagðist hafa hringt í Asif Ali Zardari, forseta Pakistans, eftir aðgerðina og bætti við að samvinna við Pakistana hefði leitt bandarísku leyniþjónustuna á sporið. 

Mynd af Osama bin Laden frá 1998.
Mynd af Osama bin Laden frá 1998.
Stór hópur fólks safnaðist saman framan við Hvíta húsið í …
Stór hópur fólks safnaðist saman framan við Hvíta húsið í Washington í nótt þegar fréttir bárust af því að Osama bin Laden væri allur. Reuters
Osama bin Laden með Ayman al-Zawahiri, næstráðanda sínum.
Osama bin Laden með Ayman al-Zawahiri, næstráðanda sínum. Reuters
Turnar World Trade Center í New York brenna eftir að …
Turnar World Trade Center í New York brenna eftir að flugvélum var flogið á þá 11. september 2001. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert