Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fagnaði í kvöld dauða hryðjuverkaleiðtogans Osama bin Ladens og sagði að um væri að ræða mikilvæg tímamót í baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi.
Öll ríkin 15, sem eiga sæti í öryggisráðinu, stóðu að ályktun þar sem fréttum af dauða Osama bin Ladens er fagnað þar sem tryggt sé, að hann muni aldrei framar geta framið hryðjuverk á borð við árásirnar á Bandaríkin 11. september 2001.
Afar sjaldgæft er að öryggisráðið fagni dauða einstaklinga í ályktunum og einnig er sjaldgæft að menn séu nefndir með nafni í slíkum ályktunum.
Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri SÞ, sat sérstakan fund öryggisráðsins þar sem ályktunin var samþykkt. Hann fagnaði því einnig, að bin Laden hefði verið ráðinn af dögum og sagði að réttlætinu hefði verið fullnægt.
Bandarískir þingmenn lýstu í dag furðu sinni á því, að bin Laden skyldi hafa getað dvalið óáreittur í landi, sem nýtur fjárhagsaðstoðar frá Bandaríkjunum.
Bin Laden bjó í stóru víggirtu húsi í bæ þar sem margir fyrrverandi pakistanskir herforingjar búa.
„Húsið hefur verið þarna í fimm ár. Það er erfitt að ímynda sér, að herinn hafi ekki haft hugmynd um hvað gekk á þar inni," sagði Carl Levin, formaður hermálanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings.
Joe Lieberman, formaður heimavarnarnefndar öldungadeildarinnar, sagðist spá því, að stjórnvöld í Pakistan muni eiga mjög undir högg að sækja og að þau þurfi að reyna að sýna fram á, að þau hafi ekki vitað að bin Laden var þarna.