Spurningar hafa vaknað um hollustu hers og leyniþjónustu Pakistans við Bandaríkin í hernaðinum gegn hryðjuverkanetinu al-Qaeda eftir að bandarísk sérsveit skaut Osama bin Laden til bana í árás í Pakistan í fyrradag.
Talið hafði verið í mörg ár að bin Laden væri í felum í fjöllum í norðvesturhluta Pakistans, á einu af einangruðustu landsvæðum heims, eða innan landamæra Afganistans. Sagt var eftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11. september 2001 að bin Laden byggi aldrei lengi á sama stað, heldur flytti sig frá einum helli til annars til þess að forðast handtöku.
Ólíkt Saddam Hussein, sem fannst í holu við bóndabæ í Írak árið 2003, fannst Osama bin Laden í dýru stórhýsi í borginni Abbottabad, um 100 km norðan við pakistönsku höfuðborgina Islamabad. Hermt er að húsið hafi verið um 800 metra frá herforingjaháskóla pakistanska hersins. Á meðal herforingja sem hafa útskrifast frá skólanum eru yfirhershöfðingi landsins og yfirmaður leyniþjónustu hersins, ISI.
Að sögn blaðsins The Financial Times vekur þetta grunsemdir um að Pakistansher leiki tveimur skjöldum, að yfirmenn í hernum séu hallir undir íslamska öfgamenn og landið sé notað sem bækistöð fyrir alþjóðlega hryðjuverkastarfsemi. „Aðstæðurnar eru enn óljósar, en við þurfum að komast að því hvernig á því stendur að illræmdasti hryðjuverkamaður heimsins fannst nálægt bækistöð hersins,“ hefur blaðið eftir vestrænum stjórnarerindreka í Islamabad.
Leyniþjónustan hafði í mörg ár leitað upplýsinga um nánustu samstarfsmenn bin Ladens og hafði sérstakan áhuga á einum af fáum sendiboðum sem hryðjuverkaleiðtoginn treysti. Fangar í Guantánamo-fangelsinu á Kúbu sögðu frá dulnefni mannsins við yfirheyrslur og lýstu honum sem skjólstæðingi Khalids Sheikh Mohammeds, sem viðurkenndi að hafa verið heilinn á bak við hryðjuverkin 11. september 2001.
Leyniþjónustan komst síðan að réttu nafni sendiboðans fyrir um það bil fjórum árum. Um tveimur árum síðar fékk leyniþjónustan upplýsingar um að hann byggi í grennd við Íslamabad og í ágúst síðastliðnum komst hún að því að hann bjó með bróður sínum í stóru húsi í Abbottabad.
Húsið var reist árið 2005 og verðmæti þess er áætlað um milljón dollarar, eða rúmar 110 milljónir króna. Eftir að hafa fylgst með húsinu í nokkra mánuði komst leyniþjónustan að þeirri niðurstöðu að það hlyti að vera dvalarstaður einhvers hátt setts manns innan al-Qaeda, líklega bin Ladens.
Um miðjan febrúarmánuð taldi leyniþjónustan miklar líkur á því að bin Laden dveldi í húsinu og byrjaði að skipuleggja hugsanlega árás á það. 14. mars sat Barack Obama Bandaríkjaforseti fyrsta fundinn í þjóðaröryggisráði sínu um aðgerðina. Ráðið kom alls fimm sinnum saman til að ræða málið næstu sex vikurnar. Obama fyrirskipaði síðan árásina á föstudaginn var.
Árásinni hefur ekki verið lýst í smáatriðum, en hermt er að sérsveitarmennirnir hafi verið fluttir með tveimur eða þremur þyrlum. Bin Laden var skotinn í höfuðið og líki hans var síðar sökkt í sjóinn „í samræmi við íslamska hefð“, að sögn bandarískra embættismenna. Þeir sögðu að stjórnvöldum í Pakistan hefði ekki verið skýrt frá árásinni fyrirfram.
Skömmu eftir að skýrt var frá falli bin Ladens birti hin virta AP-fréttastofa mynd af blóðugu líkinu, með sári á andliti. Fljótlega kom í ljós í rannsókn sem vefsíðan msnbc.com stóð fyrir að nær örugglega var um fölsun að ræða og AP dró myndina til baka.