Mynd af líki Osama hryllileg

Osama bin Laden og Ayman al-Zawahri sem sagður er hafa …
Osama bin Laden og Ayman al-Zawahri sem sagður er hafa tekið við forystu í Al Qaeda. Reuters

Talsmaður Bandaríkjaforseta lýsti því yfir í kvöld að ljósmynd sem tekin var af líki Osama Bin Laden væri hryllileg og hætta væri á að birting hennar, til að sanna að hann væri í raun allur, myndi valda reiði. Innan Bandaríkjastjórnar er nú rætt um hvort rétt sé að birta myndina.


„Það er ekki hægt að segja annað en myndin sé hryllileg ... hún gæti valdið æsingi,“ sagði Jay Carney, talsmaður Hvíta hússins. Verið væri að ræða kosti þess og galla að birta ljósmyndina og að Barack Obama, Bandaríkjaforseti, tæki þátt í þeim umræðum.


Andstæðingar Bandaríkjanna hafa sumir dregið frásögn Bandaríkjastjórnar af árásinni á sunnudag sem lauk með því að Bin Laden var felldur í efa. Afganskir talibanar hafa ekkert tjáð sig um málið og sagt það vera of snemmt.


Ljóst er að birting myndarinnar myndi kollvarpa, eða a.m.k. draga úr vægi, alls kyns samsæriskenninga sem eru á sveimi um að Bin Laden hafi í raun ekki verið ráðinn bani í Pakistan. Embættismenn þurfa jafnframt að hafa í huga að ef reiðialda blossar upp vegna myndbirtingar, sem gæti verið talin óvirðing við látinn mann, gæti slíkt kynt undir árásum á Bandaríkjamenn og aðra.

Haft hefur verið eftir bandarískum embættismanni að Bin Laden hafi verið skotinn í höfuðið, ofan við auga. Einn möguleiki sem er til skoðunar er að birt verði mynd sem tekin var áður en líki Bin Ladens var varpað í sjóinn.

Það segir líklega sína sögu um myndina að þegar Leon Panetta, forstjóri CIA, gaf bandarískum þingmönnum skýrslu um árásina, sýndi hann ekki mynd af líkinu.

Harry Reid, leiðtogi demókrata á bandaríska þinginu sagði umræðuna um hugsanlega myndbirtingu vera óhugnanlega. „Ég ætla ekki að hrópa á torgum og krefjast þess að myndin verði birt,“ sagði hann.

Patrick Meehan, þingmaður Repúblíkanaflokksins og formaður þingnefndar fulltrúadeildarinnar um leynilega upplýsingaöflun og varnir gegn hryðjuverkum, sagðist vonast til að hægt væri að birta einhverja mynd sem myndi eyða öllum vafa um málið.

Blaðamenn að störfum fyrir utan húsið sem hýsti Osama bin …
Blaðamenn að störfum fyrir utan húsið sem hýsti Osama bin Laden í Abbottabad í Pakistan. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert