Osama bin Laden var óvopnaður

Innan úr verustað Osama bin Ladens.
Innan úr verustað Osama bin Ladens. HO

Bandarísk stjórnvöld sáu sig tilneydd til þess í kvöld að leiðrétta upphaflega frásögn af því hvernig dauða hryðjuverkaleiðtogans Osama bin Ladens bar að. Var því borið við að fyrri frásögn hefði verið send út í miklum flýti.

Þannig var staðfesti blaðaflulltrúi Hvíta hússins, Jay Carney, á blaðamannafundi í kvöld að bin Laden hefði ekki verið vopnaður og skotið á bandarísku sérsveitarmennina heldur hafi hann verið óvopnaður þegar hann var drepinn.

Þá staðfesti Carney ennfremur það sem áður hafði komið fram í fjölmiðlum að bin Laden hefði ekki skýlt sér á bak við eiginkonu sína þegar árásin á verustað hans var gerð. Konan hefði þvert á móti lifað af og verið tekin höndum ásamt öðrum sem voru í húsinu og lifðu árásina af.

„Við komum á framfæri miklu magni af upplýsingum í miklum flýti með það fyrir augum að upplýsa ykkur um aðgerðina. Sumar af þessum upplýsingum eru nú til endurskoðunar og uppfærslu,“ sagði Carney við blaðamenn.

Hann gaf síðan nýja lýsingu á því hvernig bin Laden var drepinn og sagði bandarísku sérsveitarmennina hafa fundið hann á efstu hæð hússins. Þegar þeir hafi komið inn í herbergið hafi konan hans reynt að stöðva árásarliðið og verið skotin í fótinn en ekki drepin. „Bin Laden var síðan skotinn til bana. Hann var óvopnaður,“ sagði Carney.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert