Sektaður fyrir kynþáttahatur

Danskur leiðtogi alþjóðlegra samtaka, sem berjast fyrir frelsi fjölmiðla, var í dag sakfelldur fyrir brot á lögum gegn kynþáttahatri og sektaður um 5 þúsund danskar krónur, jafnvirði 110 þúsund íslenskra króna.

Eystri landsréttur komst að þeirri niðurstöðu, að ummæli sem Lars Hedegaard lét falla í viðtali árið 2009 við danska bloggvefinn snaphanen.dk bæru vitni um kynþáttahatur. Héraðsdómur hafði áður sýknað Hedegaard af ákærunni.

Hedegaard sagði m.a. að frændur eða feður í múslimafjölskyldum nauðguðu ungum stúlkum og að ekki væri litið svo á að múslimakonur væru manneskjur. 

Hedegaard hélt því fram, að hann hefði ekki leyft að ummælin yrðu birt. Hann sagði við danska fjölmiðla, að hann væri ekki kynþáttahatari og myndi áfrýja dómnum til hæstaréttar eða mannréttindadómstóls Evrópu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert