Gæti verið dæmdur til dauða

Hosni Mubarak, fyrrverandi forseti Egyptalands
Hosni Mubarak, fyrrverandi forseti Egyptalands Reuters

Hosni Mubarak, fyrrverandi forseti Egyptalands, gæti átt yfir höfði sér dauðadóm verði hann fundinn sekur um að hafa fyrirskipað dráp á mótmælendum gegn stjórn sinni, segir dómsmálaráðherra landsins.

„Einn ákæruliðanna snýr að meðsekt í morði á píslarvottum og því að hafa fyrirskipað aðgerðir sem fólu það í sér,“ sagði Mohamed Abdelaziz al-Juindy, dómsálaráðherra. „Þetta er lögbrot sem mjög hörð viðurlög eru við - dauðarefsing.“

Í sínu fyrsta sjónvarpsviðtali frá því hann tók við embætti sagði ráðherrann að egypskir dómstólar myndu ekki hika við að dæma Mubarak til dauða ef þeir dæma hann sekan.

„Ef sektin er sönnuð, þá mun rétturinn ekki hika við að beita dauðarefsingu,“ sagði hann. „Dómari getur sýnt vægð ef hann telur ástæðu til þess, en ég held að í þessu máli sé engin ástæða til að sýna neina linkind.“

Mubarak sagði af sér embætti í febrúar í kjölfar harðra mótmæla. Hann hafði þá verið við völd í meira en 30 ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert