Ísinn á norðurhjaranum bráðnar nú sem aldrei fyrr. Vísindamenn hafa orðið vitni að gríðarlega miklum breytingum á hafís á norðurslóðum, á Grænlandsjökli og jöklum í kringum Norður-Íshafið.
Niðurstöður rannsóknanna eru nú kynntar á ráðstefnu um loftslagsbreytingar á norðurslóðum sem um 400 vísindamenn sækja í Kaupmannahöfn. Skýrsla sérfræðingahóps Norðurskautsráðsins, svonefnd SWIPA-skýrsla, er rædd á ráðstefnunni.
Þar kemur m.a. fram að hlýnun loftslags á Norðurheimsskautssvæðinu, vegna loftslagsbreytinga, hafi verið tvöfalt meiri en meðaltalshlýnun í heiminum frá árinu 1980. Lofthiti við yfirborð á norðurhjaranum frá árinu 2005 hefur verið hærri en á nokkru öðru fimm ára tímabili frá því að mælingar hófust um árið 1880.
Sumarhiti á norðurslóðum undanfarna áratugi hefur verið hærri en nokkur dæmi eru um áður undanfarin 2.000 ár. Auk þess eru vísbendingar um að samspil snævar og hafís við veðurkerfin ýti undir hlýnunina.