Með 500 evrur og símanúmer

Hryðjuverkaleiðtoginn Osama bin Laden var með 500 evrur og tvö leynileg símanúmer saumuð í föt sín þegar hann var ráðinn af dögum í Pakistan á sunnudagskvöld.

Breska sjónvarpsfréttastofan Sky News hefur þetta eftir bandarískum embættismönnum. 

Sérsveitarmennirnir, sem réðust inn í bygginguna í Abbottabad í Pakistan, þar sem bin Laden dvaldist, lögðu hald á mikið af tölvugögnum í byggingunni. Hafa gögn verið send til höfuðstöðva bandarísku leyniþjónustunnar CIA í Langley í Virginíu og tölvurnar sjálfar og harðir diskar eru á leiðinni þangað.

Lík bin Ladens var fyrst flutt í flugskýli í Afganistan og síðan um borð í herskipið USS Carl Vinson. Því var síðan sökkt í sæ í Arabíuflóa. Ein af eiginkonum bin Ladens hafði þegar borið kennsl á líkið og DNA-rannsókn á sýni úr líkinu leiddi í ljós að líkurnar á að það væri af bin Laden voru nærri 100%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert