Samkvæmt nýrri skýrslu Amnesty International, hafa fangabúðir fyrir pólitíska fanga í Norður-Kóreu stækkað umtalsvert síðastliðinn áratug og er nú talið að um 200 þúsund fangar séu hýstir í slíkum búðum í landinu.
Í einum búðunum, Kwanliso, er þúsundum haldið fyrir það eitt að þekkja, eða hafa einhvers konar tengsl, við fólk sem hefur verið handtekið. Margir hafa ekki hugmynd um af hverju þeim er haldið föngum í búðunum.
Aðstæður í búðunum eru skelfilegar, þar er fólki þrælað út, það svelt og neytt til að horfa á aftökur annarra fanga. Því er misþyrmt og það niðurlægt og sumir taka til þess ráðs að borða rottur til að halda lífi.
Fyrrum fangi, sem var haldið í Yodok-búðunum á árunum 2000-2003, segir að vinnudagurinn hafi byrjað kl. 4 um nótt og staðið til kl. 20 að kvöldi. Þá hafi tekið við tveggja tíma hugmyndafræðileg „menntun.“ Þeir sem kláruðu verkefni dagsins fengu síðan 200 gr. af graut en dauðsföll voru daglegt líf í búðunum og talið að um 40% fanga hafi dáið úr næringarskorti árunum 1999-2001.
„Á sama tíma og Norður-Kórea virðist vera að eignast nýjan leiðtoga, Kim Jong-Un, og pólitískur óstöðugleiki virðist ríka í landinu, er það mikið áhyggjuefni að fangabúðirnar virðast vera að vaxa að stærð og umfangi,“ segir Sam Zarifi, yfirmaður Asíu- og Kyrrahafsdeildar Amnesty.