Alain Juppe, utanríkisráðherra Frakklands, segir daga Moamer Gaddafi senn talda og að honum hafi ekkert orðið ágengt frá fyrstu vikum átakanna í Líbýu. Þjóðarleiðtogar fjölda ríkja funduðu vegna vegna stöðunnar í landinu í dag.
Fundinn sóttu, auk Juppe, Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Anders Fogh Rasmussen framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins og leiðtogi uppreisnarmanna í Líbýu, Mahmud Jibril, meðal annarra.
Á það var fallist að tryggja þyrfti uppreisnarmönnum fjármagn, og yrði það meðal annars sótt í frysta sjóði Gaddafi víða um heim. Evrópusambandið og Bandaríkin hafa fryst allt að 60 milljarða dala ýmist á bankareikningum eða í formi fjárfestinga.
Uppreisnarmenn í Líbýu segjast þurfa í það minnsta þriggja milljarða dala lánalínu nú þegar til þess að koma í veg fyrir efnahagslegt hrun í austurhluta landsins, sem þeir hafa yfirráð yfir.
Hillary Clinton segir Bandaríkjamenn ætla að sér að setja löggjöf sem heimili þeim að taka hluta líbýskra eigna í landinu og nota í þessum tilgangi. Þá verði einnig reynt að liðka fyrir því að uppreisnarmenn geti selt olíu úr landinu, sem myndi bæta fjárhagsstöðu þeirra.
Franco Frattini, utanríkisráðherra Ítalíu, leggur á það áherslu að ná verði pólitískri lausn á vanda Líbýu og bætti því við að til þess að vopnahlé yrði trúverðugt væri nauðsynlegt að Gaddafi færi frá völdum.
Uppreisnarmenn segja 10 þúsund manns hafa fallið í átökunum í Líbýu til þessa.