Spænsk yfirvöld birtu í fyrsta skipti kort yfir um tvö þúsund fjöldagrafir frá tíma einræðisherrans Francisco Francos á Netinu í gær. Er þetta gert til að bregðast við óskum ættingja fólks sem var myrt af einræðisstjórninni.
Árið 2007 samþykkti ríkisstjórn sósíalista lög sem viðurkenna fórnarlömb Francos. Þá hefur fjöldi minnisvarða og tákna um einræðisherrann verið fjarlægð um allt land.
Nærri þorpinu Loma de Montija á Mið-Spáni var ein slík fjöldagröf opnuð en þar hafa jarðneskar leifar Severinu Gómez sem var 62 ára gömul auk 23 annarra legið í 75 ár. Lágu líkin með hendur bundnar fyrir aftan bak innan um byssukúlur.
„Við fórum alltaf og lögðum blóm þar á allraheilagramessu en lögreglan reyndi alltaf að stoppa okkur og aðrir komu og fjarlægðu þau. Enn þann dag í dag er þorpið klofið,“ segir hinn 64 ára gamli Agustín Fernández, barnabarn Severinu. Hann bíður þess að kennsl verði borin á lík ömmu hans með DNA-prófi.
Severina Gómez var ein af um tólf þúsund vinstrimanna sem voru myrtir fjarri víglínum borgarastríðsins af her hins öfgahægrisinnaða einræðisherra Francisco Francos eftir að hann hóf uppreisn gegn ríkisstjórn landsins árið 1936.
Hingað til hafa um 250 af fjöldagröfnum verið opnaðar og um 5.400 lík fundist í þeim. Breska blaðið The Guardian segir frá þessu á vefsíðu sinni í dag.
„Faðir minn lést með þeim sársauka að hafa aldrei fundið lík móður sinnar,“ segir Fernández.