Eldsneytisverðið lamar efnahag

Hátt eldsneytisverð dregur úr kaupmætti Bandaríkjamanna. Þetta sagði Barack Obama, forseti, þegar hann ávarpaði starfsmenn bílaverksmiðju í Indiana.

Obama flutti ávarp sitt sama dag og vinnumálaráðuneyti landsins tilkynnti að fjöldi starfa í einkageiranum hefði vaxið um 268.000. Það er mesta fjölgun starfa í ellefu mánuði í Bandaríkjunum.

„Við höfum náð þessum árangri á þeim tímum þegar efnahagur okkar hefur búið við mótbyr - og ég þarf ekki að segja ykkur neitt um það. Eldsneytisverði er svo hátt að það nagar í launin ykkar. Og það er mótbyr sem við verðum að snúast gegn,“ sagði forsetinn.

Hann viðurkenndi að atvinnulausum hefði fjölgað um 0,2 prósentustig í 9%. 

„Það koma svona upp- og niðursveiflur á leiðinni út úr efnahagslægðinni. Og það verða ábyggilega fleiri áskoranir framundan. En staðreyndin er sú að okkur fer fram og það sannar seigluna í bandarísku efnahagslífi og hvað bandarískir starfsmenn eru seigir. Við getum tekið áföllum og haldið áfram. Það er einmitt það sem við erum að gera,“ sagði Obama.

Útbreidd reiði vegna hækkandi eldsneytisverð hefur þrýst á Obama að leita leiða til að létta byrðar neytenda, en hann sækist eftir endurkjöri á næsta ári. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka