Eiginkona Osama bin Ladens hefur sagt pakistönskum lögreglumönnum, að eiginmaður hennar hafi ekki farið út úr húsi í fimm ár heldur hafst við í tveimur herbergjum í húsinu í Abbottabad í Pakistan þar sem hann var síðan ráðinn af dögum á sunnudag.
Bandaríska sjónvarpsstöðin CNN hefur eftir Athar Abbas, talsmanni pakistanska hersins, að konan, Amal Ahmed Abdul Fatah, segist heldur ekki hafa farið út úr húsi þennan tíma.
Hvorki var síma né netsamband í húsinu en bin Laden hafði hins vegar hóp sendiboða sem komu boðum á framfæri frá honum og til hans. Öllu sorpi var brennt í húsagarðinum.
Upplýsingar í tölvum og á tölvudiskum, sem bandarískir sérsveitarmenn höfðu á brott með sér úr húsinu, benda hins vegar til þess að bin Laden hafi íhugað ýmiskonar árásir á Bandaríkin. Meðal annars hafi hann velt því fyrir sér hvort hryðjuverkasamtökin al-Qaeda ættu að gera árásir á járnbrautarlestir eða tilteknar borgir síðar á þessu ári til að halda upp á að 10 ár verða þá liðin frá hryðjuverkaárásunum á New York og Washington.