Barack Obama Bandaríkjaforseti mun í dag hitta meðlimi sérsveitarinnar sem réðust á bækistöðvar Osama bin Ladens í Abbottabad í Pakistan og tóku hann af lífi á sunnudag til að þakka þeim fyrir vel unnin störf. Mun hann hitta þá í Fort Campbell-herstöðinni í Kentucky.
Er þetta síðasti liður Obamas í að fagna dauða bin Ladens en hann hefur þó reynt að komast hjá ásökunum um að hann sé að reyna að hagnast pólitískt á morðinu.
Í gær minntist forsetinn fórnarlamba Al-Qaeda frá 11. september 2001 með því að leggja blómsveig við Ground Zero, þar sem Tvíburaturnarnir stóðu áður.
Stillti hann ræðuhöldum í hóf en í slökkviliðsstöð sem missti heila vakt, alls 15 menn, í turnum World Trade Center, sagði Obama að dauði bin Ladens sýndi að Bandaríkin væru staðráðin í að koma fram réttlæti yfir hryðjuverkamönnum.