Bandarísk stjórnvöld hafa birt myndbönd, sem sýna hryðjuverkamanninn Osama bin Laden horfa á fréttir í sjónvarpi þar sem hann er sjálfur umfjöllunarefnið.
Um er að ræða myndskeið, sem bandarískir sérsveitarmenn tóku með sér úr húsinu í Pakistan þar sem þeir réðu bin Laden af dögum fyrir viku. Háttsettur embættismaður sagði í dag, að um væri að ræða mikilvægustu gögn, sem nokkru sinni hefðu fundist í baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi og þau sýndu að bin Laden hefði tekið þátt í að skipuleggja hryðjuverk allt til loka.
Bandarískir blaðamenn fengu að sjá myndskeiðin í dag. Þau eru fimm og sýna daglegt líf bin Ladens í húsinu í Abbottabad þar sem hann er talinn hafa dvalið í að minnsta kosti 5 ár.
Myndskeiðin eru m.a. hlutar af áróðursmyndum, sem virðast sýna, að bin Laden var mjög annt um ímynd sína. Á nokkrum myndum virðist bin Laden hafa litað hár og skegg sitt svart en á myndskeiðinu, þar sem hann horfir á sjálfan sig í sjónvarpi, er hár hans grátt og skeggið úfið. Bin Laden situr, vafinn í brúnt teppi og heldur á fjarstýringu skiptir ótt og títt á milli stöðva. Sjónvarpið er gamalt og úr því liggja vírar í tengibox.