Náðu mikilvægum gögnum

Leon Panetta, forstjóri CIA.
Leon Panetta, forstjóri CIA. AP

Gögnin sem Bandaríkjamenn náðu í árásinni á felustað Osama bin Laden sanna hve mikilvægt var að leita uppi foringja Al-Qaeda, að sögn Leon Panetta, forstjóra bandarísku leyniþjónustunnar CIA.

Panetta segir í yfirlýsingu að öll fyrirhöfnin við að rekja slóðir Bin Ladens til hússins í Abbottabad hafi sýnt „þrautseigju, hæfni og beinlínis kjark“ CIA.

„Gögnin sem fundust í búðunum staðfesta enn frekar hve mikilvægt var að eltast við Bin Laden,“ sagði Panetta.

„Bandaríska þjóðin hefur vænst þessa af okkur allt frá 9.11. Við skiluðum okkar í þessari erfiðu aðgerð.“

Forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar sendi yfirlýsinguna frá sér um leið og bandarísk stjórnvöld birtu fimm myndskeið sem lagt var hald á í aðgerðinni þar sem bandarískir sérsveitarmenn skutu bin Laden til bana.

Í gögnunum sem tekin voru úr bústað bin Ladens voru stafrænar skrár, hljóðupptökur og myndbönd, prentuð gögn, tölvubúnaður, upptökutæki og handskrifuð skjöl, að sögn embættismanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert