Osama bin Laden æfði júdó

Júdóþjálfari í fremstu röð frá Taívan kveðst hafa þjálfað Osama bin Laden í júdó í Sádi-Arabíu á níunda áratug síðustu aldar. Hann man enn hvað Osama var alvarlegur í bragði. 

Taívanski júdóþjálfarinn segir að bin Laden, sem talinn er vera skeggjaði maðurinn á myndinni, hafi skorið sig úr þegar hann þjálfaði hann í Sádi-Arabíu vegna hæðar hans og hvað hann var alvarlegur í bragði og íhaldssamur. 

Reuters fréttastofan getur ekki staðfest að maðurinn á myndbandinu og ljósmyndunum sé bin Laden. Jimmi Wu, taívanskur júdóþjálfari í fremstu röð, segir að hann hafi hitt bin Laden þegar hann þjálfaði landslið Sádi-Arabíu í júdó frá 1981-1991. 

Bin Laden, sem Wu þekkti þá aðeins undir nafninu „Osama“, sótti æfingar í júdóstöðinni þegar hann var enn í háskóla. Wu segir að bin Laden hafi verið of hávaxinn fyrir júdó og hann hafi ráðlagt honum að æfa ekki íþróttina en hann vildi ekki gefa sig svo Wu samþykkti að þjálfa hann.

Wu minnist atviks þegar konan hans kom í júdóstöðina. Wu sagði að nemendurnir hafi leitt nærveru hennar hjá sér nema „Osama“ sem sagði að hún ætti ekki að vera þarna.

„Á þeim tíma hafði þetta sérstök áhrif á mig, þegar ég hugsa til baka, „þetta var Osama“. Hann var ekki eins og hinir. Öðrum þótti ekki mikið til um þetta, en, þótt konan mín hafi verið með höfuðblæju þá voru fötin hennar ekki eins og hefðbundinn arabískur kvenbúningur.

Hinir nemendurnir gerðu sér ekki rellu út af því, en Osama? Hann samþykkti þetta ekki,“ sagði Jimmy Wu júdóþjálfari. 

Wu kvaðst ekki hafa þekkt nafnið bin Laden þegar hann þjálfaði „Osama“ en kveðst hafa farið að tengja þetta saman eftir árásirnar 9. september 2001.

„Mér var boðið aftur vegna námskeiðs og var að spjalla við nemendurna þegar einn sagði: Ó, Jimmy, Osama er hetjan okkar. Ég áttaði mig ekki á því hver Osama var. Svo sagði neminn mér að maðurinn á myndinni væri Osama bin Laden. Bin Laden var ættarnafnið hans. Ég kallaði hann bara Osama,“ sagði Jimmy Wu.

Bandarískir hermenn deyddu Osama bin Laden í Pakistan 2. maí síðastliðinn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert