Ueli Maurer, varnarmálaráðherra Sviss, gagnrýnir Barack Obama Bandaríkjaforseta fyrir yfirlýsinguna sem hann gaf eftir að Osama bin Laden var veginn. Segir ráðherrann að með yfirlýsingunni hafi Obama gert foringja al-Qaeda hátt undir höfði.
„Það er vafasamt í mínum augum að forsetinn flytji þessar fregnir. Með þessu gerir hann hryðjuverkamann að jafningja sínum,“ segir Maurer í viðtali við svissneska dagblaðið Der Sonntag. „Þetta gerir bin Laden að píslarvætti,“ bætti hann við og sagði að það hefði heldur átt að láta talsmann lesa tilkynninguna eða gefa hana út í rituðu máli.
Maurer telur að yfirlýsingin muni gagnast Obama vel í næstu kosningabaráttu. Forsetinn hafi þó upphafið hryðjuverkasamtökin með yfirlýsingunni - þau séu nú álitin jafnoki Bandaríkjanna, öflugasta lands í heimi.