Ofbeldisverk sem unnin voru í Írak í síðustu viku sýna að þótt Al-Qaeda samtökin hafi beðið mikinn hnekki þá eru þau ekki liðin undir lok. Vika ofbeldis fylgdi í kjölfar þess að Osama bin Laden var veginn.
Bílsprengja sprakk nærri lögreglustöð í Sadr borgarhverfinu í norðausturhluta Bagdad á mánudag. Að minnsta kosti þrír fórust og á annan tug særðust.
Límsprengja, sem fest var við kyrrstæðan bíl, sprakk í Hilla rétt sunnan við Bagdad og varð að minnsta kosti einum að bana.
Aftur var gerð árás í Bagdad á þriðjudag. Þá sprakk bílsprengja nálægt markaði í hverfi Shíta og drap fjóra og særði marga tugi manna til viðbótar.
Vegarsprengja drap óbreyttan borgara í Bagdad á fimmtudag. Sprengunni var komið fyrir í lagnabrunni á aðalgötu. Þá dóu að minnsta kosti 16 og meira en 40 særðust þegar bílsprengja sprakk í Hilla.
Sjálfsvígssprengjumaður ók þá bíl sínum inn í inngang lögreglustöðvar á vaktaskiptum þegar margir lögreglumenn voru fyrir utan stöðina.
Ofbeldið vekur vissulega áhyggjur en engu að síður tekst betur en áður að tryggja öryggi í Írak. Bandarískir embættismenn segja að að öllu jöfnu séu gerðar færri en 15 árásir á dag í Írak nú og hefur þeim fækkað mikið frá 2007 þegar daglegar árásartilraunir voru um 145 að jafnaði.
Reuters fréttastofan ræddi við Jeffrey Buchanan herforingja í Bagdad, fulltrúa Pentagon.
„Það eru einangruð tilvik ógna meðan al Quaeda verður æ einangraðra, en þeir geta vissulega unnið hrikaleg eða hræðileg ofbeldisverk, rétt eins og við höfum fengið að sjá undanfarna daga svo þeir skapa vissulega ógn en það er samt mikill munur á nú og fyrir mörgum árum þegar þeir höfðu frelsi til að athafna sig um allt land.
Ég held ekki að það stafi sama ógn af þeim nú hvað varðar að steypa stjórn landsins af stóli eins og einu sinni,“ sagði Jeffrey Buchanan herforingi.
Hann segir að almennt hafi áhrif al Qaeda í Írak minnkað mikið. „Það hefur dregið úr getu al Qaeda til að fjármagna starfsemi sína, til að fá Íraka í lið með sér, eins til að skipuleggja og framkvæma aðgerðir og getu þeirra til að koma með útlenda bardagamenn yfir landamærin. Það er jafn mikilvægt að tekist hefur að takmarka mjög samskiptin og fjárstreymið milli forystunnar og þess sem gerist í landinu.
Að teknu tilliti til þess alls þá stafar vissulega ógn af al Qaeda í Írak, þeir hafa aldrei látið af þeirri löngun sinni að reka fleyg á milli stjórnvalda og almennings og þeir hafa aldrei breytt þeirri stefnu sinni að drepa eins marga og þeir geta. Svo þeir valda ógn og við erum enn að eiga við þá,“ sagði Jeffrey Buchanan herforingi.
Árásirnar á lögreglu og her koma í sama mund og Bandaríkjamenn undirbúa að draga her sinn til baka í lok ársins, meira en átta árum eftir að Bandaríkjamenn voru í fararbroddi innrásarinnar í Írak.