Kúbverjar fá aukið ferðafrelsi

Frá Havana á Kúbu.
Frá Havana á Kúbu. Reuters

Kúbverjar eiga að fá meira ferðafrelsi en þeir hafa notið til þessa. Þeim verður leyft að fara úr landi í fyrsta skipti í hálfa öld og ferðast til annarra landa sem ferðamenn. Ríkisstjórn Raouls Castro tilkynnti þetta í dag, án þess að gefa nánari upplýsingar um áform stjórnvalda.

Stjórnvöld á Kúbu birtu lista yfir 313 áformaðar umbætur þegar flokksþing Kommúnistaflokksins var haldið um miðjan apríl. Þar var einn liðurinn: „Kanna stefnumótunaráætlun sem leyfir Kúbverjum sem búa í landinu að ferðast til útlanda sem ferðamenn.“

Ekki var að finna í skjalinu nánari útfærslu um nýju ferðastefnuna eða dagsetningu þegar henni verður hrint í framkvæmd. Litið var á þetta sem opinbera ákvörðun stjórnar Castros um að heimila ferðir almennings til útlanda.  

Þótt ferðir til útlanda séu ekki beinlínis bannaðar á Kúbu, þá þurfa þeir landsmenn sem vilja yfirgefa landið að yfirstíga margvíslegar skrifræðislegar hindranir. 

Leyfi til að fara úr landi kostar 150 dollara og hægt er að neita að veita það. Ferðir til útlanda hafa verið takmarkaðar við 30 daga ferðalag hið mesta. Pappírsfargan og leyfakaup kosta um 400 dollara, sem er of mikið fyrir flesta landsmenn.

Ef Kúbverji snýr ekki aftur heim innan 11 mánaða, samkvæmt núgildandi reglum, er hægt að lýsa hann „strokumann“ og gera allar eigur hans á Kúbu upptækar.

Til þessa hafa einkum listamenn, fræðimenn, íþróttamenn og fáeinir viðskiptamenn fengið að fara úr landi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert