Taugaóstyrkur fyrir árásina

Barack Obama á gangi við Hvíta húsið um helgina.
Barack Obama á gangi við Hvíta húsið um helgina. Reuters

Barack Obama, Bandaríkjaforseti, viðurkenndi í viðtali við sjónvarpsþáttinn 60 Minutes í nótt, að hann hefði verið taugaóstyrkur í aðdraganda þess að bandarískir sérsveitarmenn gerðu árás á hryðjuverkeleiðtogann Osama bin Laden.

Obama sagðist hafa hugsað til orrustunnar um Mogadishu í Sómalíu árið 1993 þegar tvær bandarískar Black Hawk þyrlur voru skotnar niður og herskáir heimamenn drógu lík bandarískra hermanna eftir götum borgarinnar.  

Einnig hefði hann hugsað um misheppnaða björgunaraðgerð bandarískra sérsveitarmanna í Íran árið 1980. Jimmy Carter, þáverandi forseti, hafði fyrirskipað að reynt yrði að bjarga hópi Bandaríkjamanna, sem teknir voru í gíslingu í bandaríska sendiráðinu en hætta varð við aðgerðina þegar tvær flugvélar rákust saman skömmu áður en komið var til Teheran. 

En Obama sagði, að til að bæta gráu ofan á svart hafi bandaríska leyniþjónustan ekki verið viss um, að sá sem hafðist við í húsinu í Abbottabad í Pakistan, og fylgst hafði verið með í nokkra mánuði, væri Osama bin Laden. Engin mynd náðist af íbúanum dularfulla. 

„Við höfðum engar beinar sannanir fyrir því að hann væri þarna," sagði Obama. „Þegar öllu var á botninn hvolft voru líkurnar 55% á móti 45%. Við gátum ekki vitað með vissu að bin Laden væri þarna og hefði sú verið raunin hefðu aðgerðirnar getað haft alvarlegar afleiðingar."  

Obama sagði, að það væri afar áhættusamt að hefja hernaðaraðgerð á yfirráðasvæði annars ríkis og án þess að gera því ríki viðvart.  

„Og þegar síðan kemur í ljós, að auðugur prins frá Dubai býr í húsinu og maður hefur sent sérsveitina á hann, þá er maður kominn í vandræði," sagði Obama.  

Sumir ráðgjafar voru andvígir því, að senda sérsveitarmenn og láta þá ráðast til atlögu eins og gert var. En Obama sagðist hafa viljað geta sagt með vissu, að rétti maðurinn hefði náðst og auk þess kynni að gefast tækifæri til að afla upplýsinga í byggingunni.   

Obama sagðist hafa tekið endanlega ákvörðun á fimmtudag en árásin var gerð á sunnudagskvöldi. „Ég sagði við sjálfan mig, að það væru góðir möguleikar á að laska al-Qaeda þótt ekki tækist að sigra samtökin. Það væri því þess virði að taka hina pólitísku áhættu." 

Obama lét eins og ekkert hefði í skorist síðustu daga vinunnar. Hann skoðaði hamfarasvæði í Bandaríkjunum þar sem hvirfilbylir fóru yfir, hélt ræður og gerði grín að Donald Trump í árlegum kvöldverði fyrir blaðamenn í Hvíta húsinu. 

„Ég sagði fjölskyldunni ekki frá þessu... Afar fáir í Hvíta húsinu þekktu málið. Fæstir helstu ráðgjafa minna vissu um þetta," sagði Obama. „Stundum langaði mig til að ræða þetta við hitt fólkið en það var bara ekki hægt. Og um helgina sóttu efasemdirnar að mér."

Forsetinn lék golf á sunnudag og beið þess að kvöldaði í Pakistan. Hann hélt síðan í aðgerðaherbergi Hvíta hússins um kvöldið og fylgdist með aðgerðinni ásamt helstu ráðgjöfum sínum í þjóðaröryggismálum.  Hann sagði að það hefði verið mikil spenna í loftinu.

„Þetta voru lengstu 40 mínútur ævi minnar, ef hugsanlega er undanskilið þegar Sasha (dóttir Obama) fékk heilahimnubólgu 3 mánaða gömul og ég beið eftir því að læknirinn segði mér að hún myndi ná sér," sagði Obama.

Síðan heyrðust sérsveitarmennirnir kalla: Geronimo en það var leyniorðið fyrir bin Laden.

„Þeir sögðu að Geronimo   hefði verið  drepinn. Og Geronimo var leyniorðið fyrir bin Laden. Þessir menn voru að vinna í myrkrinu og það gekk ýmislegt á og því voru allir varkárir. En varfærnislega bjartsýnir." 

Síðar, þegar þyrlurnar lentu eftir að aðgerðinni lauk voru teknar myndir og tækni notuð til bera kennsl á bin Laden. 

„Þótt ég væri taugaóstyrkur vegna þess alls var þó eitt, sem rændi mig ekki svefni og það var að mögulegt væri að ráða bin Laden af dögum. Réttlætinu var fullnægt. Og ég tel að þeir, sem halda því fram að sá sem framdi fjöldamorð á bandarískri grundu hafi ekki hlotið makleg málagjöld ættu að láta rannsaka sig."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert