Fyrrverandi ferðamálaráðherra Egyptalands hefur verið dæmdur til að dvelja í fangelsi í fimm ár vegna spillingar.
Zuhair Garranah var var handtekinn ásamt tveimur viðskiptamönnum og ákærður fyrir að hafa haft af ríkinu sem samsvarar um 50 milljónir dollara eftir að hafa samþykkt sölu á ríkislandi fyrir mun lægra verð en markaðsverð.
Síðan Hosni Mubarak missti völdin í Egyptalandi í febrúar hafa margir fyrrverandi menn í áhrifastöðum verið teknir fyrir og aðgerðir þeirra rannsakaðar. Þar á meðal eru meira en 20 fyrrverandi ráðherrar og viðskiptamenn. Habib al-Adly, fyrrverandi innanríkisráðherra, var til dæmis dæmdur í 12 ára fangelsi í liðinni viku, meðal annars fyrir peningaþvætti.