Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er á leið til Nuuk á Grænlandi til að vera á fundi Norðurskautsráðsins. Á fundinum á að fjalla um hvernig eigi að bregðast við þeim breytingum sem eru að verða á Norðurskautinu vegna hlýnandi loftslags.
Clinton verður fyrsti utanríkisráðherra Bandaríkjanna til að taka þátt í fundi ráðsins. Bandarískir embætismenn segja að þátttaka hennar á fundinum sýni að norðurheimskautið sé nú ofar á forgangslista Bandaríkjastjórnar.
Í frétt Reuters segir að bráðnun íshellunnar valdi íbúum á svæðinum vandræðum og ógni viðkomu hvítabjarna og fleiri dýra. En breytingarnar muni einnig gera siglingar um norðurskautið auðveldari. Jafnframt verði auðveldara að stunda þar námavinnslu og leita að olíu og gasi.
Á fundinum sem hefst í fyrramálið verða einnig fulltrúar Kanada, Rússlands, Noregs, Finnlands, Íslands, Svíþjóðar og Danmerkur sem fer með utanríkismál fyrir hönd Grænlendinga.
Á fundinum er stefnt á að ná samkomulagi um leitar- og björgunarstörf á svæðinu. Einnig verður rætt um stöðu áheyrnarfulltrúa, s.s. Kína, um hvar skrifstofa ráðsins verður staðsett og ýmislegt fleira.