Ekki fleiri látist í 40 ár

Jarðskjálftinn á Spáni í dag er sá mannskæðast í yfir 40 ár. Staðfest hefur verið að átta manns létust í skjálftanum og margir til viðbótar eru sárir. Upphaflega var talið að tíu manns hefðu farist en yfirvöld breyttu þeirri tölu í kvöld og segja nú átta látna og tvo lífshættulega slasaða. Hús í bænum Lorca hrundu og önnur skemmdust mikið þegar skjálftinn reið yfir síðdegis.

Myndir sem birst hafa í vefútgáfu spænska dagblaðsins El Mundo sýna miklar skemmdir, bæði á húsum og bílum sem urðu undir braki. Hægt er að komast á vef El Mundo hér. 

Rúmlega 92.000 manns búa í bænum Lorca. Íbúar segja að þar sé mikil ringulreið. Erfitt sé að komast um götur enda séu þær fullar af braki. Mestu skemmdirnar urðu í Lorca og Totana en einnig urðu skemmdir í Albacete og Velez-Rubio í Almeria-héraði.

Langt er síðan mannfall hefur orðið af völdum jarðskjálfta á Spáni. Það gerðist síðast árið 1969 þegar 19 manns fórust í jarðskjálfta í Huelva og Isla Christina í Granada-héraði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert