Segja bin Laden fjölskylduna niðurlægða

Kona með barn skammt frá staðnum þar sem Osama bin …
Kona með barn skammt frá staðnum þar sem Osama bin Laden var veginn. Reuters

Synir hryðjuverkaleiðtogans Osama bin Ladens fordæma víg hans. Þeir segja fjölskylduna hafa verið niðurlægða, þegar líki hans var sökkt í sæ.

Synirnir sendu út yfirlýsingu sem var birt í New Tork Times. Þar spyrja þeir hvers vegna faðir þeirra hafi ekki verið handtekinn og leiddur fyrir dóm, þannig að sannleikurinn mætti verða ljós. Draga þeir í efa að „slík aftaka samræmist alþjóðalögum“.

Í yfirlýsingunni er ennfremur farið fram á að þrjár ekkjur bin Ladens, sem eru í haldi lögreglu, verði látnar lausar.

Aðeins einn sona bin Ladens kemur fram undir nafni í yfirlýsingunni, Omar bin Laden. Um hann segir í yfirlýsingunni að rétt sé að árétta að Omar, sem er fjórði elsti sonurinn, hafi ávallt fordæmt ofbeldisfullar aðgerðir föður síns og ítrekað beðið hann um að breyta um aðferðir.

Bandaríkjastjórn segist bíða eftir leyfi frá pakistönskum yfirvöldum til að yfirheyra ekkjur bin Ladens.

Omar bin Laden, sonur Osama bin Laden.
Omar bin Laden, sonur Osama bin Laden. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert