Eric Holder, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, segir að áhlaup bandarískra sérsveitarmanna á felustað Osama bin Laden, leiðtoga al-Qaeda, í Pakistan hafi verið löglegt. Markmiðið hafi ekki verið að ráða bin Laden af dögum.
Holder sagði í samtali við breska ríkisútvarpið að sérsveitarmennirnir hefðu fengið það verkefni að „handsama eða drepa“. Hefði bin Laden boðist til að gefast upp þá hefði hann verið handsamaður.
Ráðherrann segir að stjórnvöld hafi fyrst og fremst hugsað um öryggi sérsveitarmannanna sem tóku þátt í aðgerðunum. Þá segir hann að samkvæmt alþjóðalögum þá sé leyfilegt fyrir þjóðir að ráðast á óvinveitta leiðtoga.
Sem kunnugt er var bin Laden skotinn til bana 2. maí sl. í Abbottabad í Pakistan.
Viðbrögð almennings við aðgerð bandarísku sérsveitarmannanna eru blendin. Í dag komu saman mörg hundruð stuðningsmenn Nawaz Sharif, fyrrverandi forsætisráðherra Pakistans, í Abbottabad til að mótmæla bandarískum yfirgangi.
Þeir hrópuðu „Burt með Bandaríkin“, „Niður með Obama [Bandaríkjaforseta]“ og „Niður með Zardari [forseta Pakistans].
Sharif hefur farið fram á að árásin á bin Laden verði rannsökuð.
Holder segir hins vegar að sérsveitarmennirnir hafi hagað sér á viðeigandi máta þar sem ekkert hafi bent til uppgjafar bin Ladens.
„Ef sá möguleiki hefði verið fyrir hendi, ef það hefði komið til greina að gefast upp, þá hefði það gerst,“ sagði ráðherrann.
Þá segir hann að það sem aðskilji Bandaríkin og bandamenn sína í Bretlandi frá andstæðingum þjóðanna sé sú staðreynd að Bandaríkjamenn og Bretar fari eftir lögum.
„Við virðum lög og reglur. Við hegðum okkur á viðeigandi hátt og búumst við þvi að aðrir geri slíkt hið sama, og ég er þeirrar skoðunar að sérsveitarmennirnir hafi hegðað sér á máta sem er í samræmi við bandarísk og bresk gildi.“