Bresk stjórnvöld hafa fyrirskipað lögreglunni í London að aðstoða við leitina að bresku stúlkunni Madeleine McCann með sérfræðiþekkingu sinni. Stúlkan hvarf sporlaust þegar hún var í fríi með fjölskyldu sinni í Portúgal árið 2007.
Foreldrar stúlkunnar, Kate og Gerry McCann báðu David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, um aðstoð og hefur hann brugðist við með þessum hætti. Þá eru viðræður í gangi við lögregluna í Portúgal um hvernig skuli að því staðið að yfirfara aftur þau sönnunargögn sem fyrir liggja.
Fram kemur í yfirlýsingu frá breska innanríkisráðuneytinu að forsætisráðherrann og innanríkisráðherrann hafi, í samráði við lögreglustjórann Paul Stephenson ákveðið að Lundúnalögreglan muni beita sérfræðiþekkingu sinni við rannsókn málsins.
Fyrr í dag fóru Kate og Gerry McCann fram á það að sönnunargögn og aðrar upplýsingar varðandi hvarf stúlkunnar yrðu endurskoðaðar. Þá báðu þau Cameron um að ræða við Jose Socrates, forsætisráðherra Portúgals, og biðja hann um aðstoð.
„Ég er bjartsýnn, en við viljum sjá stjórnvöld grípa til aðgerða,“ segir Gerry McCann, sem bætir við að Cameron muni bregðast við bóninni njóti hún stuðnings meðal almennings.
Lögreglan í Portúgal setti lokapunkt við rannsókn málsins 14 mánuðum eftir að Madeleine hvarf. Foreldrar hennar hafa hins vegar sagt að þau muni ekki gefast upp fyrr en þau finna dóttur sína.