Forysta Evrópusambandsins er í miklum vafa um hvort nýjar landamærareglur, sem Danir hyggjast koma á við landamæri sín, séu innnan Schengen-samkomulagsins.
Danir hafa lýst því yfir að þeir hyggist taka aftur upp landamæraeftirlit við landamærin að Svíþjóð og Þýskalandi.
Pia Ahrenkilde Hansen, talsmaður framkvæmdastjórnar ESB, segir í samtali við vefsíðu danska dagblaðsins Jyllands-Posten í dag að hert landamæragæsla Dana geti bæði strítt gegn Schengen og gegn frjálsum flutningi fólks innan ESB svæðisins.
Hún segir að José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, hafi í morgun rætt við Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur um fyrirætlanir Dana. Barroso mun hafa látið í ljós miklar áhyggjur vegna þessa.
Barroso hefur varað Rasmussen við því að breytingarnar geti brotið í bága við grunngildi ESB.
Lars Løkke Rasmussen er aftur á móti sagður hafa fullvissað Barroso um að svo væri ekki.