Dmitry Medvedev, forseti Rússlands, varar við því í sjónvarpsviðtali að byggt sé upp valdakerfi í kringum einn leiðtoga. Hafa orð hans verið túlkað sem enn eitt merkið um togstreitu á milli hans og Vladimírs Pútíns, forsætisráðherra.
Forsetinn minntist ekki á Pútín, sem hefur verið forseti og forsætisráðherra í Rússlandi frá árinu 2000, með nafni en orð hans virtust óvenju hörð og skýr gagnrýni á það stjórnmálakerfi sem byggt hefur verið upp í Rússlandi frá því að Pútín tók við af Boris Jeltsín sem forseti.
„Þessi ofþjöppun valds er virkilega hættuleg. Það hefur gerst ítrekað í landi okkar og hefur undantekningarlaust leitt til stöðnunar eða borgarastríðs. Við ættum ekki að leyfa slíku að gerast,“ sagði Medvedev en það var Pútín sem valdi hann sem arftaka sinn þegar hann lauk öðru kjörtímabili sínu sem forseti árið 2008.
Sagði hann ennfremur að tilraunir til þess að byggja upp valdakerfi í kringum ákveðna manneskju væru alltaf hættulegar. Þó það valdi ekki vandamálum í augnablikinu þá muni það skapa gríðarleg vandamál fyrir landið og manneskjuna sjálfa í náinni framtíð.
Pútín reynir nú að sameina félagsleg- og stjórnmálaleg öfl í kringum stjórnarflokk sinn, Sameinað Rússland. Kallar hann bandalagið Fylkingu allrar rússnesku þjóðarinnar. Á bandalagið að vera til fyrir þingkosningar í desember. Þremur mánuðum seinna fara fram forsetakosningar þar sem Pútín verður í framboði.