Segja herskip hafa hunsað flóttafólk

Líbískur flóttamaður í flóttamannabúðum í Túnis.
Líbískur flóttamaður í flóttamannabúðum í Túnis. Reuters

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna segist óttast að 1200 flóttamenn frá Líbíu hafi drukknað í Miðjarðarhafi. Stofnunin segist hafa sannanir fyrir því að herskip hafi neitað að bjarga bát með flóttamönnum.

„Um 12.000 flóttamenn hafa farið til Ítalíu eða Möltu og við teljum að 1200 manns hafi látist eða sé saknað,“ sagði Melissa Fleming, talsmaður Flóttamannastofnunarinnar.

Flóttamaður greindi stofnuninni frá því að herskip hefði ekki viljað bjarga bát með 72 flóttamönnum innanborðs, en flestir þeirra létust síðan vegna áreynslu, þorsta eða úr hungri.

Þetta gerðist seint í mars eða í byrjun apríl.

Flóttamaðurinn sagði að tvö herskip hefðu siglt fram hjá bátnum og síðan hefði herþyrla kastað mat og vatni niður í bátinn.

Skipverjar annars skipsins hefðu neitað að verða við hjálparbeiðni flóttamannanna, skipverjar hins skipsins hefðu tekið myndir af þeim.

Fólkið velktist um í bátnum í tvær vikur og einn af öðrum gaf upp öndina. Flóttamaðurinn segir að fólkið hafi drukkið eigið þvag og borðað tannkrem.

Breska dagblaðið Guardian hefur leitt að því líkum að um hafi verið að ræða franska flugmóðurskipið  Charles De Gaulle, sem var á leið til að koma á flugbanni yfir Líbíu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert